Ég á Facebook | Hafa samband | Veftré | Mín eldri síða
 
02.12.2006 - Stjórnvöld skulda velferðarkerfi
Á þessu ári hafa sjúklingafélögin, Félag MND – sjúklinga; Heilaheill; LAUF – Landssamtök áhugafólks um flogaveiki; MG – félag Íslands; MS – félag Íslands og Parkinsonsamtökin, [Vinnuheitið SAMTAUG] haft með sér samráð og knúið dyra hjá yfirstjórn Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH).  Er það gert í því skyni að auka skilning milli aðila, er hafa lýst yfir vilja sínum með skriflegu samkomulagi að eiga samstarf með skipulegum hætti um mál sem varða skjólstæðinga félaganna og LSH.  Þetta hefur gengið vel eftir og af skiljanlegum ástæðum hefur ýmislegt komið í ljós sem betur mætti fara í okkar heilbrigðiskerfi, sem því miður er komin slagsíða á.  Þetta er ekki síst vegna þess að innan félaganna er að finna fagaðila, sem ýmist vinna ennþá á sjúkrahúsunum eða eru komnir á eftirlaun.  Þá er verið að tala um vekja athygli stjórnvalda t.a.m. á ýmsum hagkvæmum atriðum er leitt gætu til frekari sparnaðar í heilbrigðiskerfinu, sé til lengri tíma litið.  Hollvinir Grensásdeildar hafa vakið athygli á nauðsyninni á t.d. að byggja nýja a.m.k. 1000 m2 álmu við deildina og mætti með því spara mikið fé á því til frambúðar.  Þá hefur komið í ljós að loknu málþingi Heilaheilla í október s.l., að með því að setja á laggirnar sérstaka deild innan sjúkrahúsanna, er hefði sérhæfðu starfsfólki í heilablóðfallssjúkdómum á að skipa, væri hægt að bjarga mannslífum.  Þá hefur komið í ljós staða Sjálfsbjargar af nýloknum sambandsstjórnarfundi um síðust helgi er nokkuð breytt, Sjálfsbjörg þarf að ganga í endurnýjun lífdaga og þá einnig staða fatlaðra í okkar samfélagi.  Þá er eftir að minnast á málefni aldraðra o.s.frv..   
Í stuttu máli, það verður að segjast eins og er að sú afvegaleidda umræða um “hátæknisjúkrahús” hefur nokkrum sinnum skotið upp kollinum og tafið fyrir umræðunni.  Það hefur heyrst sú skoðun að frekar nota nokkra þá milljarða af sölu Símans til að bæta þá þjónustu sem nú er, heldur en að byggja nýtt sjúkrahús.  Ég held að menn ættu aðeins að staldra hér við og ég er ekki búinn að mynda mér skoðun á málinu.  En þar sem við erum sammála um að bæta þjónustuna sem nú er, þá ættum við að horfa til framtíðar að styðja hugmyndina um nýtt og veglegt sjúkrahús, en koma þeim skilaboðum til stjórnvalda að þau skulda þjóðinni velferðarkerfið og taki peninganna annarsstaðar frá.  Þannig geta þau leiðrétt þann halla sem nú er.

 


Þórir Steingrímsson | thorir@thorir.is