Ég á Facebook | Hafa samband | Veftré | Mín eldri síða
 
23.11.2006 - Fordómafull umræða. – Einsleitur stigagangur.
Hingað til lands streyma erlendir einstaklingar í því skyni að mynda sér einhverskonar framtíð, þá í stuttan tíma, langvarandi eða jafnvel íhuga búsetu til frambúðar.   Það er mikill auður fyrir land og þjóð að myndað sé fjölmenningarsamfélag af fólki, sem hefur þessa áræðni og dugnað, sem er okkur að skapi.  Alþingi hefur sett lög fyrir stjórnvöld til fara eftir, en því miður hafa þau ekki gert viðeigandi ráðstafanir er tryggja réttarstöðu þessa fólks, sem skilur vart eða alls ekki íslensku.  Innflytjendur hafa t.a.m. flykkst inn á atvinnumarkaðinn í því skyni á sjá sér og sínum farborða og lái þeim hver sem vill, að þeir láta sér nægja að nota eitthvert annað tungumál en íslensku.  Þetta er að vísu ekki vandamál bara hér á landi, þar sem okkur berast fréttir um vandamál innflytjenda m.a. í Evrópu, m.s. Frakkar virðast ekki hafa tök á vandamálinu. Þar, sem og víðar, hefur borið á því að innflytjendur af sama þjóðerni og trúarbrögðum hafa verið þröngvað eða komið sér saman í hverfum og myndað sér samfélög, sem á stundum er nokkuð ólík þeim er þeir fluttu inní.  Aftur á móti er mikil fjölmenning í þeim fjölbýlishúsum sem erlendir einstaklingar byggja hér á landi og við höfum alla burði í því að skapa þessu fólki góða og trausta framtíð.  Það gerum við með því að byggja framtíð fyrir börnin er læra íslenskuna jafnvel betur en þeir eldri og sjá um samskipti þessara ólíku menningarhópa á íslensku.

Samkvæmt lögum um útlendinga skulu atvinnurekendur og stéttarfélög veita starfsmanni með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða.  Þessu hefur því miður ekki verið fylgt nægilega eftir og gerir Alþjóðahúsið sitt besta, eins og lög standa til, en betur má ef duga skal.
 



Þórir Steingrímsson | thorir@thorir.is